Baráttan

Ábyrg forysta í þágu allra félagsmanna
VR er eitt öflugasta stéttarfélag landsins með hátt í 40 þúsund félagsmenn um land allt. Félagið getur því í krafti stærðar sinnar og stöðu haft mikil áhrif. Þessa stöðu þarf að axla af ábyrgð með hagsmuni allra félagsmanna leiðarljósi.

Stéttarfélagið þitt á að vinna fyrir þig
Kjarabarátta VR þarf að taka mið af því að mikill meirihluti félagsmanna er millitekjufólk í verslunar- og skrifstofustörfum. Þessi breidd í launum og menntun félagsmanna þarf að endurspeglast í starfsemi félagsins. Hér þarf að mínu mati að gefa í. Félagið þarf að standa í lappirnar fyrir félagsmenn sína.

Staða lægri millitekjuhópa
VR þarf ekki hvað síst að standa í lappirnar fyrir lægri millitekjuhópua félagsins. Kaupmáttur þeirra hefur verið að skerðast hlutfallslega mest á vinnumarkaði.

Stærðin skiptir máli
Helsta sérstaða VR hefur verið sú, að félagið er málsvari millitekjufólks á breiðu bili í launum og menntun. Við erum ótrúlega stór og flottur hópur með rúmlega 38 þúsund manns innanborðs. Þessi mikla breidd hefur verið lykillinn að vexti og velgengni félagsins. Úrsögnum úr VR hefur farið fjölgandi, enda býðst félagsmönnum nú mun fleiri kostir í stéttarfélagsaðild. Þetta er þróun sem veikt getur stöðu VR og verður að stöðva. Við viljum stórt og öflugt VR.

Allir eiga að geta lifað á launum sínum
Þess vegna eiga lægstu laun að taka mið af lágmarksframfærslu. Það þýðir að laun verði aldrei lægri en svo að starfsmaður geti ekki framfleytt sér. Þetta er vel þekkt viðmið á hinum Norðurlöndunum og ein helsta grunnstoð norræna velferðarkerfisins. Þá ætti þetta ekki að vera flókið dæmi fyrir þjóð eins og Ísland sem er alþjóðlegur methafi í vísitölugerð og verðtryggingarútreikningum.

Tölum um hlutina eins og þeir eru
Stærsti hluti VR félaga eru á markaðslaunum og þakka má markaðslaunakerfinu að launakjör innan VR hafa að jafnaði verið með því besta sem gerist. Þetta gerist ekki sjálfkrafa. Mikilvægt er að innviðum kerfisins sé haldið við og félagsmönnum gert kleift að nýta kerfið til fulls sér til framdráttar. VR á að standa þétt við bakið á öllum félagsmönnum í sókn þeirra til betri lífskjara.

Raunverulegar kjarabætur
Launahækkun sem gufar jafnharðan upp í víxlhækkunum verðlags og launa er ekki kjarabót heldur kjaraskerðing. Við sitjum eftir með minni kaupgetu þrátt fyrir launahækkun. Þetta þarf ekki að vera svona. Við vitum að bein tengsl eru á milli kjarasamninga og verðlagsþróunar og eigum þess vegna að semja um kjarabætur sem skila okkur aukinni kaupgetu í raun.

Styttum vinnuvikuna og aukum sveigjanleika
Mikilvægt er að við lítum á kjör á heildstæðan hátt. Launin skipta að sjálfsögðu miklu máli en hvað eru laun án lífsgæða? Við þurfum að ná betri árangri í styttingu vinnuvikunnar og semja um aukinn sveigjanleika vinnunnar, þar sem það er hægt, til dæmis um ákveðinn fjölda daga sem mætti taka að heiman.

Hámarks lífeyrir
VR hefur staðið fyrir umdeildum aðgerðum gagnvart Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Lífeyrissjóðurinn okkar hefur aðeins einu hlutverki að gegna og það er að ávaxta iðgjöldin sem við greiðum honum mánaðarlega. Þessu hlutverki VERÐUR sjóðurinn að fá frið til að sinna, svo að hann geti greitt sjóðsfélögum út óskertan lífeyri þegar þar að kemur.

Gerum sjúkrasjóðinn aftur öflugan
Öflugur sjúkrasjóður hefur verið eitt helsta aðalsmerki VR. Þessi mikilvægi sjóður okkar hefur verið að gefa eftir og greiðir nú 80% af launum í 7 mánuði í stað 9 mánuði áður. Það munar um 2 mánuði þegar og ef alvarleg veikindi knýja dyra. Hér þarf að gera bragarbót á.

Endurhugsum starfsmenntasjóðinn
Verulegar breytingar eru að eiga sér stað á vinnumarkaði samfara sjálfvirknivæðingu, orkuskiptum og aukinni sérhæfingu. Hin almenna þróun er sú að endurmenntun og símenntun vegur sífellt þyngra fyrir almennt launafólk. Mikilvægt er að félagsmönnum bjóðist fjölbreytt tækifæri til frekari menntunar og að framboð verði aukið á hagnýtu námi sem svarar þörfum vinnumarkaðarins.

Tími fyrir alla fjölskylduna
Víða í nágrannalöndum okkar hefur launafólk rétt á að sinna allri fjölskyldunni þegar á þarf að halda – föður, móður, maka og afa og ömmu. Hjá okkur er þessi réttur að verulegu leyti bundinn manni sjálfum og börnum manns. Þennan rétt þarf að víkka út svo að hann nái til allra náninna skyldmenna.

Lægstu launin hafa hækkað en hvað með verslunarfólk?
Ég vil beita mér fyrir því að launakjör verslunarfólks verði skoðuð sérstaklega með hliðsjón af hækkun lægstu launa og áhrifum jaðarskatta á kaupmáttinn hjá þessum hópi félagsmanna.

Hvernig nýtst varasjóðurinn þér?
Mér finnst ekki síður mikilvægt að við endurmetum þjónustu VR með hliðsjón af því hvernig hún er að nýtast einstökum félagsmönnum. Hjá flestum stéttarfélögum fá félagsmenn endurgreiddan útlagðan kostnað vegna gleraugna, tannlækninga og sálfræðiþjónustu, svo að dæmi séu tekin. Varasjóðurinn er það lítill hjá mörgum VR félögum að hann nýtist afar takmarkað í þessum efnum.

Öxlum ábyrgð í loftslagsmálum
Vinnumarkaðurinn gegnir lykilhlutverki fyrir kolefnishlutlaust Ísland, s.s. við skipti yfir í endurnýjanlega orku og sköpun grænna starfa. Okkur ber skylda til að skjóta sjálfbærum stoðum undir efnahags- og atvinnulíf landsmanna og koma þar með í veg fyrir að velferð okkar í dag rýri ekki velferð komandi kynslóða. Þá verður við umskipti yfir í kolefnishlutleysi að gæta að áhrifum breytinga á stöðu einstakra hópa.

Besta þjónustan
Þjónusta VR við félagsmenn er verkefni sem þarf að vera í stöðugri þróun og endurmótun í virku samtali við félagsmenn. Er þjónustan að nýtast öllum félagsmönnum jafnt? Hvar má gera betur, hvaða nýjungar viljum við sjá og eru dæmi þess að þjónusta hafi gengið sitt skeið á enda, svo sem í orlofsmálunum? VR hefur verið og á að vera með bestu þjónustuna. Þannig viljum við hafa það.

Norræna vinnmarkaðslíkanið
Aðilar vinnumarkaðarins á hinum Norðurlöndunum hafa frá síðari hluta 20. aldar skipað viðræðum sín á milli eftir ákveðinni forskrift. Meginmarkmiðið er svigrúm til launahækkana skiptist með sanngjörnum hætti niður tekjustigann. Þetta hefur í gegnum áratugina reynst nokkuð happadrjúgt fyrirkomulag. Stöðugleiki og velmegun hefur einkennt samfélagsþróun þessara frænþjóða okkar, enda er líkanið talið ein helst stoð norræna velferðarkerfisins.

Öflug hagsmunabarátta
Kjaraviðræður og kjarasamningsmál eru hluti af stærri heild í hagsmunabaráttu VR. Hagstjórn, verðbólga, húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, ráðstöfunartekjur, staða atvinnuleitenda … málefnin eru mörg og brýn og eiga mörg það sammerkt að tengjast velferð félagsmanna. Í krafti stærðar sinnar hefur VR mikilvægu leiðtogahlutverki að gegna í þessum efnum, ekki hvað síst þegar að því kemur að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald í efnahags- og velferðarmálum.

Úrelt átakamenning
VR hefur á undanförnum árum staðið fyrir vaxandi átakamenningu í kjarabaráttunni. Á meðan þessi gamaldags átakamenning þrífst enn í íslenskum stjórnmálum, þá er hún löngu úrelt í kjarabaráttunni. Þess vegna er svo mikilvægt að formaður VR skilji stjórnmálaskoðanir sínar eftir heima, þegar hann fer í vinnuna. Formaður VR þarf njóta trúnaðar allra félagsmanna óháð flokkspólitískum skoðunum hvers og eins eða þeim vindum sem blása í stjórnmálunum hverju sinni.

%d bloggers like this: