Besta þjónustan

VR var um langt skeið leiðandi í þjónsutu við félagsmenn og hefur þessi ófrávíkjanlega áhersla á framúrskarandi þjónustu gegnt lykilhlutverki fyrir vöxt og viðgang VR.

Þessar frábæru vinnu eigum við að halda áfram með áherslu á virkt samtal við félagsmenn um reglunbundna endurskoðun og þróun.

Sem fyrr eru orlofsmálin ofarlega á baugi og hvernig VR geti gert félagsmönnum kleift að fá sem mest fyrir peningana. En margt fleira kemur til í afþreyingu, fræðslu og lífstíl.

50+

Með hækkandi meðalaldri og auknum lífslíkum þurfum við að vinna að breyttum aldursviðhorfum á vinnumarkaði. Fimmtíu ár er enginn aldur og 60 ár eiginlega ekki heldur.

Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldri heldur góðri starfsorku og vill taka virkan þátt í samfélaginu.

Að þessari viðhorfsbreytingu þarf að vinna bæði á forsendum markaðssetningar og í samstarfi við stjórnvöld og lífeyrissjóði. Smæð vinnumarkaðarins er að mörgu leyti hamlandi þáttur fyrir hagvexti hér á landi.

Höfum við efni á aldursfordómum á vinnumarkaði?

Sveigjanlegri vinnumarkaður

Eitt mikilvægasta verkefni aðila vinnumarkaðarins í dag er að stuðla að auknum sveigjanleika vinnumarkaðarins. Í þessu felst að við verðum að vera reiðubúin að ræða mennta- og fræðslukerfið opið og fordómalaust og opin fyrir breytingum.

Þetta er með öðrum orðum flókið verkefni sem á sér ekki formlegt upphaf eða endi, heldur veldur sá er á heldur.

Ég tel brýnt að VR móti sér stefnu og beiti sér fyrir því að þetta samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda fari fram og skili væntum árangri.

Framtíðin er núna og mikilvægt er að stuðlað sé með markvissum hætti að lifandi og dýnamísku samspili menntunar og vinnumarkaðar.

Fjórða iðnbyltingin í þágu launafólks

Verulegar breytingar hafa verið að eiga sér stað í grunnkerfi atvinnu- og efnahagslífsins. Vísað hefur verið til þessarar þróunar sem fjórðu iðnbyltingarinnar, aðallega vegna þess miðlæga hlutverks sem stafræn þróun gervigreindar gegnir.

Reiknað hefur verið út að á næstu 10-15 árum muni 85% starfa hér á landi taka verulegum eða miklum breytingum af þessum sökum. Önnur sviðsmynd sem hefur verið í umræðunni sýnir að störfin sem 30% þeirra sem eru í 3. bekk munu gegna séu enn ekki orðin til.

Hér er að mörgu að gæta. Þessum grunnbreytingum hefur fram að þessu fylgt aukin verðmætasköpun og/eða hagnaður hjá fyrirtækjum, s.s. með fækkun starfsfólks og lækkun framleiðslukostnaðar. Umræða um borgaralaun á sem dæmi upptök sín í þessum aukna hagnaði, en staðreyndin er sú að þessi þróun getur að óbreyttu leitt af sér aukna misskiptingu og minnkandi velferð.

Afar brýnt er að þessi aukna verðmætasköpun skili sér með sanngjörnum hætti niður tekjuskalann og verði til þess að auðga samfélagið í heild sinni og skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið okkar.

Viðukennd lágmarksframfærsluviðmið

Lágmarksframfærsluviðmið segir að laun megi ekki vera lægri en sem nemur þeim kostnaði sem launafólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér. Nágrannaþjóðir okkar hafa áratugum saman verið með slík viðmið lögfest. Það hlýtur enda að vera eðlileg krafa að allir geti lifað á launum sínum.

Endalaust karp um lægstu laun og stöðu lágtekjuhópa á ekki að vera fastur liður í kjarasamningum. Þetta er barátta sem launþegahreyfingin á að sameinast um gagnvart stjórnvöldum. Krafan á að vera að allir geti lifað á launum sínum og með þetta fullvaxna vísitölukerfi sem við höfum komið okkur upp, ætti að vera í lófa lagið að reikna út lágmarksframfærslu og þar með lágmarkslaun hér á landi.

Að festa kjaraumræðuna í stöðugu lægstulaunakarpi, eins og venja hefur staðið hér til, er skemmandi fyrir kjarabaráttuna og drepur kröftum hennar á dreif. Ein birtingarmynd þess er, sem dæmi, að lægri millitekjur fá stöðu sem virðist ofarlega í tekjuskalanum, sem hefur svo aftur leitt af sér hlutfallslega of mikla skattlagningu á þessi tekjuþrep.

Tölum um hlutina eins og þeir eru. Mikilvæg skref hafa verið tekin í hækkun lægstu launa, sem er frábær árangur. Þetta er hins vegar umræða sem við eigum að taka út úr hinni almennu kjarabaráttu og leysa með einfaldri lagasetningu um lágmarksframfærsluviðmið.

Hér er um sameiginlegt hagsmunamál allra stéttarfélaga að ræða og baráttumál sem taka á upp við stjórnvöld í formi viðurkennds lágmarksframfærsluviðmiðs.

Vísitöluhemlar

Lánsvísitöluréttlæti hefur lengi verið haldið á lofti sem sanngjörnu og eðlilegu. Ekkert sanngjarnt eða eðlilegt er hins vegar við þetta kerfi, sem komið var á til bráðabirgða árið 1979 til að fleyta þjóðarbúinu út úr efnahagslegum ógöngum.

Helsti kosturinn við kerfið er sá, að sama hvaða áföllum við verðum fyrir eða hvaða hagsstjórnarmistökum mistækum ríkisstjórnum verður á, þá „jafnar“ vísitölukerfið þau mistök jafnóðum út í gegnum verðtryggða lánakerfið.

Þetta þýðir á mannamáli að launþegar þessa lands hafa verið að „greiða“ verðbólgu niður með skertum kaupmætti. Þetta er á margan hátt bráðsnjallt og efnhagslega afar skilvirkt kerfi fyrir þjóðarbúið. Og vissulega má segja að íslenska fjármálakerfið standi styrkari fótum en ella í skjóli þess. Á hinn bóginn verður þetta kerfi seint tali réttlátt eða sanngjarnt.

Með vísitöluhemlum er átt við að ríkisstjórn fái tímabundna lagaheimild til að frysta vísitölur við tiltekið hámarksgildi á neyðar- og krepputímum. Vísitöluhemlar ná bæði til verðtryggðra og óverðtryggðra lána heimilanna.

Vísitölufrystingu er ætlað að verja kaupmátt heimilana á erfiðleikatímum og deila verðbólguáhættunni með jafnara móti en venja hefur staðið til á milli lánveitenda og lántaka.

Að sjálfsögðu á þessi neyðaraðgerði einungis við þegar mikið liggur við og hætta er á að miklar og örar gengisbreytingar og óðaverðbólga hafi í för með sér gríðarlegar eignatilfærslur á milli lánveitenda og lántaka, eins og raun varð á í hruninu.

Stytting vinnuvikunnar

Með styttingu vinnuvikunnar erum við rétt að hefja einu mikilvægust vegaferð kjarabaráttunnar.

Auk vinnutímastyttingar og sveigjanlegs vinnutíma snúa stóru málin hér að samspili réttinda og tryggingasjóða annars vegar (s.s. sjúkratrygginga og sjúkrasjóða) og hins vegar hlutverkaskiptingu ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

Markmiðið er að þú eigir líf eftir vinnu eða líf þrátt fyrir vinnu sem sem einstaklingur, maki, foreldri eða aðstandandi – allt eftir þörfum.

Í dag eru einhver réttindi tryggð á öllum þessum mismunandi sviðum en mismikil og misjafnlega vel fjármögnuð,þ.e. hvort einhver réttur á launum fylgi með. Þessari ósamstæðu heild þyrfti að fella í heildstætt réttindakerfi fyrir launafólk

Þróunin í fjölskylduvænna samfélag er nátengd þróun velferðarkerfisins. Mikilvægt er að möskvar þess grípi þá sem þess þurfa og að kerfið stuðli til lengri tíma litið að aukini velmegun og lifsgæðum almennings.

Svona á VR að vera

Hlutverk stéttarfélaga er að standa vörð um velferð félagsmanna og kjör þeirra. Sem stærsta stéttarfélag landsins er VR í einstakri aðstöðu til þess og mikilvægt er að félagið viðhaldi þessari stærð sinni og styrk.

Því stærra er í þessu sambandi betra, vegna þess afls sem stærðin gefur baráttunni fyrir bættum kjörum.

VR byggir styrk sinn og sérstöðu á mikilli breidd, sem spannar allt frá launafólki í afgreiðslu- og þjónustustörfum að sérhæfðu starfsfólki og háskólamenntuðu.

Þannig á VR að vera, öflugt og fjölbreytt félag sem staðið getur við bakið á félagsmönnum sínum, hvort heldur í sókn til betri kjara eða vörn þegar erfiðleikar kunna að steðja að.

Þessari einstöku stöðu hefur VR náð með því að gæta að hagsmuna allra félagsmanna og hefja baráttuna upp yfir flokkapólitík stjórnmálanna.

Þetta þýðir á mannamáli, að VR tekur ekki afstöðu út frá sérhagsmunum heldur almennum hagsmunum heildarinnar. Í gegnum tíðina hefur það verið lykillinn að velgengni VR og mikilvægasta framlag til sögu íslensku verkalýðshreyfingarinnar.

COVID-vaktin

Við stöndum frammi fyrir enn einni kreppunni og í þetta sinn ekki „heimatilbúinni“ eins og hrunið var að hluta til, heldur alþjóðlegri kreppu í kjölfar heimsfaraldurs.

Við vitum ekki hvað þessi fordæmalausa staða felur í sér og verðum að vera á tánum næstu misseri og fylgjast vel með þróun mála á vinnumarkaðnum.

Í mínum huga er mikilvægast að sveigjanleiki vinnumarkaðarins verði aukinn enn frekar með auknum tækifærum til endur- eða símenntunar meðfram atvinnuleysisbótum eða með vinnu.

Margt bendir til skynsemis þess, að veita fólki á atvinnuleysisbótum alvöru svigrúm til náms. Ætti menntakerfið ekki jafnframt, að vera í sífelldri aðlögun að nýjum eða breyttum þörfum atvinnulífsins í virku samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins?

Með þessu móti værum við ekki aðeins að bregðast við áskorunum heimsfaraldursins heldur einnig að búa í haginn fyrir breyttar áherslur í menntamálum til framtíðar litið og aukinn sveigjanleika vinnumarkaðarins.

Þá er ekki síður brýnt að vakta náið hvort COVID aðgerðir stjórnvalda skili sér til þeirra sem á þurfa að halda. Óþolandi ef stuðningsaðgerðir skila sér seint eða illa. Þá þarf ekki síður að tryggja að stuðningur sé nægur, svo að fólk standi ekki frammi fyrir því að missa eigur sínar ofan á allt.

Við verðum þess vegna að sæta lagi og endurskoða núverandi bótakerfi með hliðsjón af reynslu síðasta árs. Við þurfum að auka skilvirkni kerfisins og laga það að þeim raunverulegu þörfum sem eru til staðar.

Þrátt fyrir góð hugsun og frábæran ásetning bendir fátt til þess að eins konar nýtt ríkisábyrgðarlánakerfi verði til bóta. Mikill kostnaður fylgir slíku kerfi óhjákvæmanlega í framkvæmd og erfitt er að sjá hvaða raunþörf býr hér að baki. Þá tekur fleiri ár fyrir bótakerfi að slípast til með tilliti til hugsanlegra vankanta.

Núverandi tryggingakerfi atvinnubóta er ekki frábært og engan veginn gallalaust, en við þekkjum kerfið og vitum nokkurn veginn hvernig það virkar. Þess vegna mælir flest með því að við nýtum þá þekkingu og innsýn sem til staðar er, til að bæta það og bygga betur upp, þannig að það gangist okkur sem skyldi þegar áföll kveðja dyra.