Óhagnaðardrifna leiguþversögnin

Nokkuð hefur verið rætt um aðkomu lífeyrissjóða hér á landi að óhagnaðardrifnum leigufélögum nú í aðdraganda formannskosninga í VR, og hefur formaður félagsins lýst sig fylgjandi slíku. Umræðan sem slík er góðra gjalda verð en hafa ber þó í huga í þessu sambandi, að lífeyrissjóðir eru sjálfstæðar fjármálastofnanir sem eiga ekki að þola þrýsting eða skuggastjórnun utanaðkomandi aðila, líkt og núverandi formaður VR hefur gert sig uppvísan að.

Góð ávöxtun er forsenda góðra lífeyrisréttinda

Erfitt er að sjá hvernig lífeyrissjóðir eigi að ávaxta fé lífeyrissjóða á sem bestan máta nema með hagnað að markmiði. Sjóðsfélagar hafa mismunandi bakgrunn og ólíka lífsýn. Það eina sem sameinar er framtíðarsýnin um óskertan lífeyri og áhyggjulaust ævikvöld þegar þar að kemur. Innan þessa ramma hljóta lífeyrissjóðir að starfa. Orðaleikir um óhagnaðardrifnar fjárfestingar geta því aldrei orðið annað en pólitískur hráskinnaleikur, og ekki viðeigandi af formanni VR að setja þennan þrýsting á lífeyrissjóði.

Staðreyndir um erlenda lífeyrissjóði

Núverandi formaður VR hefur fullyrt að óhagnaðardrifnar fjárfestingar í leigufélögum tíðkist hjá lífeyrissjóðum víða erlendis. Það hlýtur að vera á misskilningi byggt, þar sem almennt er ekki talið í verkahring lífeyrissjóða að fjármagna óhagnaðardrifna hluta leigumarkaðar. Í því eru allt aðrir aðilar, á allt öðrum forsendum líkt og hér á landi. Hollenskir og danskir lífeyrissjóðir hafa þannig tekið þátt í hagnaðardrifnum leigufélögum um árabil, svo að dæmi sé tekið.

Að stórum hluta má þakka skilvirkni danska leigumarkaðarins fagmannlegum vinnubrögðum lífeyrissjóðanna þar í landi, sem hafa um langt skeið fjármagnað hagnaðardrifin leigufélög í gegnum ýmiss konar samstarfsleiðir. Með þessu móti mynda lífeyrissjóðirnir grundvöll fyrir heilbrigðan leigumarkaði þar í landi. Af þessu getum við margt lært, ekki hvað síst ef forsendur eru til staðar hér á landi fyrir almennan leigumarkað. Margt gæti bent til að svo sé. Þeim gæti vel fari fjölgandi sem sjá sér hag í að vera lausir undan fjárskuldbindingum fasteignakaupa.

Leigufélög góð fjárfesting

Spurningunni um hvort lífeyrirsjóðir eigi að fjárfesta í óhagnaðardrifnum leigufélögum er því auðsvarað, enda þarf ekki að hugsa sig lengi um til að sjá þversögnina sem í spurningunni felst. Hlutverk lífeyrissjóða er að ávaxta iðgjöld sjóðsfélaga og óhagnaðardrifin verkefni eiga illa heima innan þess ramma. Hins vegar getur meira en vel verið að fjárfestingar lífeyrissjóða í leigufélögum eigi rétt á sér, ef um verkefni er að ræða sem fellur að fjárfestinga- og ávöxtunarstefnu viðkomandi lífeyrissjóðs. Það er einfaldlega viðkomandi lífeyrissjóðs að ákveða hvort slík fjárfesting samræmist áherslum og markmiðum hverju sinni.

Nokkrar staðreyndir um lífeyrissjóði

Ég hef verið að velta fyrir mér umræðu síðustu daga og vikna um lífeyrissjóðina. Mér virðist sem umræðan sé svolítið samhengislaus, fari dálítið tvist og bast, eins og sagt er. Þó má merkja tvo póla, finnst mér.

Á öðrum vængnum virðist því haldið fram að spilling sé að sliga kerfið, spilling sem stórfyrirtækin á Íslandi hagnist fyrst og fremst á. Á hinn bóginn eru síðan þeir sem líta veruleikann öðrum augum og telja lífeyrissjóðskerfið almennt séð í réttum farvegi, enda þótt sitthvað megi vissulega ræða í þeim efnum, eins og til dæmis einhæfni í fjárfestingum.

Í þessari umræðu eru að mínu mati nokkur mikilvæg atriði sem virðast stundum gleymast; staðreyndir sem mikilvægt er fyrir umræðuna að haldið sé til haga.
Má þar fyrst nefna gjaldeyrishöftin, sem höfðu mikil áhrif á starfsumhverfi lífeyrissjóða allt frá hruni og fram til ársins 2017, en þá fyrst voru þessi höft afnumin. Þetta haftaumhverfi batt verulega hendur lífeyrissjóða í fjárfestingum. Þetta er staðreynd sem við hljótum að hafa í huga þegar við ræðum rekstur lífeyrissjóðanna undanfarin ár og áratugi.

Í öðru lagi þarf að gera skýran greinarmun á óhagnaðardrifnum og hagnaðardrifnum verkefnum. Óhagnaðardrifnar fjárfestingar eru verkefni sem skila ekki nægri ávöxtun með tilliti til lífeyrisgreiðslna.

Léleg ávöxtun þýðir í raun bara eitt og það er að skerða verður lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.

Óhagnaðardrifin verkefni eru samfélagsverkefni sem eru í verkahring ríkis og sveitarfélaga að fjármagna. Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða og sjóðsfélaga þeirra að fjármagna samfélagsverkefni, heldur stjórnvalda og skattgreiðenda.
Í þriðja lagi þá byggir stjórnkerfi lífeyrissjóðakerfisins á sama fulltrúalýðræðinu og íslenska stjórnkerfið. Alþingi er samkunda kjörinna fulltrúa og íslenska lýðveldið byggir á fulltrúaræði.

VR og atvinnurekendur skipuðu til skamms tíma stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna beint. Þessu var breytt fyrir nokkrum árum og tekið upp fulltrúaræði – fulltrúaráð sjóðsins kýs stjórnarmenn – sem er hið ríkjandi fyrirkomulag hér á landi.

Og í fjórða og síðasta lagi þá ber að fara að leikreglum við skipan stjórna lífeyrissjóða. Ef ekki, þá er hætt við að viðkomandi stjórn njóti ekki þess trausts og trúverðugleika sem nauðsynlegt er öllum lífeyrissjóðssstjórnum.

Samstaða launafólks rofin


Eins og ég hef verið að benda á, þá eru ýmis dæmi þess að núverandi formanni hafi ekki haldist sérlega vel á forystunni hjá VR.

Á það ekki hvað síst við um frammistöðu hans í síðustu kjarasamningum, þegar samstaða verslunarmanna var rofinn í fyrsta sinn í 130 ára sögu VR.

Aðdragandinn var sá að formaðurinn ákvað að taka fyrirvaralaust fulltrúa VR út úr kjaraviðræðunum og skildi fulltrúa Landssambands verslunarmanna forviða eftir við samningaborðið.

Og til hvers var samstaða verslunarmanna rofin? Jú, svo að VR gæti myndað bandalag við Eflingu og Verkalýðsfélag Akraness um einhverja allt aðra kröfugerð en verslunarmenn höfðu komið sér saman um í aðdraganda kjaraviðræðnanna.

Þar sem Efling og Verkalýðsfélag Akraness drógu sig þar með einnig úr eigin viðræðum, var samstaðan innan ASÍ jafnframt rofin. Þetta er umhugsunarverð framganga ekki hvað síst í ljósi meira en 100 ára sögu samstöðu og samstarfs innan verkalýðshreyfingarinnar.

Þessi framganga hefur verið harðlega gagnrýnd, ekki hvað síst fyrir þá sök að kröfurnar sem þetta nýja Veflingar-bandlag setti á oddinn snerust ekki um kaup og kjör heldur verðtryggingar- og lífeyrissjóðsmál; flokkspólitísku hugðarefni formannsins.

Meiri hagsmunum var þar með fórnað fyrir minni með ófyrirséðum og óvægnum hætti. Tæplega 40 þúsund félagsmenn VR fengu því lakari samning en hefði náðst, ef VR hefði haldið sig við upphaflega áætlun og staðið sína plikt við samningaborðið – að berjast fyrir bættum launum og betri kjörum allra félagsmanna VR.

Takk fyrir frábærar móttökur <3

Ég hef undanfarna daga verið að hringja í VR félaga til að kynna mig og formannsframboðið og hafa móttökur verið alveg frábærar. Flestir sem ég hef talað við eru ánægðir með að fá val í þessum kosningum, enda hefur gustað duglega um formanninn og ekki alltaf af réttum ástæðum.

Ég finn að skemmtilegast hlutinn af svona framboði er að fá tækifæri til að tala við félagsmenn beint og milliliðalaust. Takk fyrir að deila með mér sögum úr vinnunni og skoðunum á VR, þessu flotta og magnaða stéttarfélagi okkar.

Setjum félagsmenn VR í 1. sæti

Stytting vinnuvikunnar er spurning um kjarabætur sem fela í sér aukin lífsgæði launþegum til handa. Sveigjanlegra vinnufyrirkomulag, vinna að heiman og aukin réttindi til að sinna þörfum nánustu fjölskyldu falla einnig undir þessa mikilvægu baráttu um bætt kjör með auknum lífsgæðum.

Opinberir starfsmenn virðast, eina ferðina enn, vera skrefinu á undan almenna vinnumarkaðnum með umtalsverðri styttingu á vinnuvikunni hjá félagsmönnum BSRB. Vel gert og mikilvægur árangur sem ugglaust mun ryðja brautina fyrir annað launafólk í komandi kjarasamningagerð.

Samstaða verslunarmanna rofin

Það var því uppörvandi að heyra á Bylgjunni (Í bítið, dags. 16.02. sl.) að VR ætli sér loksins í þennan slag að ná fram samningsbundnum réttindum með auknum lífsgæðum. Í síðustu kjarasamningum reyndist áhugi núverandi formanns heldur lítill á þessu viðfangsefni eða kjarasamningagerðinni yfirleitt. Samningsmarkmið hans snerust fyrst og fremst um afnám 40 ára verðtryggðra lána og breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, sem hann telur sem kunnugt er glíma við ósanngjarna ávöxtunarkröfu. Heimildir lífeyrissjóða fyrir „fagfjárfestingar“ í óhagnaðardrifinni starfsemi var því sett ofar kröfunni um bætt kjör allra VR félaga.

Þessi framganga formanns VR í síðustu kjarasamningagerð hefur sætt harðri gagnrýni innan verkalýðshreyfingarinnar. Einnig hefur legið fyrir að Landssamband verslunarmanna (LÍV) fylgdi VR ekki í þessum málum. Þvert á móti, ákvað forysta landssambandsins, eftir talsverða rekistefnu við formann VR um taktík og áherslur, að halda sínu striki og reyna að semja á þeim nótum sem upphaflega stóð til.

Orustan um lífeyrissjóðina

Þessi þrákelkni landssambandsins reyndist VR ákveðið gæfuspor þegar WOW Air féll og forsendur kjarasamningagerðar gerbreyttust í einu vetfangi. VR gat þá gert kröfugerð LÍV að sinni og loksins tekið sæti við hlið landssambandsins við samningaborðið. Mikill tími hafði þó farið til spillis í innbyrðis misklíð og var það talin helsta ástæða þess að verslunarmenn náðu ekki að öllu leyti þeim samningum sem vonir stóðu upphaflega til.

Fyrir mitt leyti hefði tíma formannsins verið mun betur varið með því að taka strax sæti við samningaborðið í upphafi og semja með LÍV um bætt kjör fyrir allra félagsmenn VR, þar á meðal aukin lífsgæði með styttri vinnuviku, sveigjanlegra starfsfyrirkomulagi og auknum rétti launafólks til að sinna þörfum nánustu fjölskyldu.
Í Ragnari Þóri Ingólfssyni býr augljós stjórnmálaforingi sem vill brjótast út. Stéttarfélagið VR er þó ekki rétti staðurinn til þess. Um það bera síðustu kjaraviðræður glöggt vitni.

Setjum kraft í kjarabaráttuna

Frábært hefur verið að fylgjast með 130 ára afmælishátíð VR. Sérstaklega þótti mér gaman að fá tækifæri til að rifja upp kynni af tveimur brautryðjendum félagsins, þeim Guðmundi H. Garðarssyni og Magnúsi L. Sveinssyni. Þessir sómamenn áttu stóran þátt í því að gera VR að því öfluga stéttarfélagi sem það er í dag.

Þeir lögðu grunninn
Undir forystu Guðmundar færði VR út kvíarnar og veitti sístækkandi stétt skrifstofufólks aðild að félaginu, en fram til ársins 1956 var VR sameiginlegt félag verslunareigenda og afgreiðslufólks. VR fékk aðild að ASÍ eftir mikla baráttu og sótti fram af mikilli einurð fyrir bættum kjörum. Magnús L. tók svo baráttuna upp á næsta stig með innleiðingu markaðslaunakerfisins, einu allra mikilvægasta kjarabaráttutæki mikils meirihluta VR-félaga.

Taxtalaun – markaðslaun
Fyrirmynd markaðslaunakerfisins er fengin frá danska vinnumarkaðnum. Helsti kostur þess er að það stuðlar að kjarajöfnun niður eftir tekjustiganum. Þessi áhrif komu mjög fljótlega í ljós, en laun VR-félaga hækkuðu að jafnaði um 19% fyrstu 18 mánuðina eftir innleiðingu launakerfisins. Segja má að þar hafi komið fram með áþreifanlegum hætti hvernig niðurnjörvun launa með töxtum getur beinlínis hamlað því að launafólk nái fram réttlátum launahækkunum.
Þessi árangur hefur, ásamt ófrávíkjanlegri áherslu á góða þjónustu við félagsmenn, skilað sér. Á fyrstu fimm árunum frá innleiðingu fjölgaði félagsmönnum um 25% og ef litið er til dagsins í dag þá hefur félagafjöldinn meira tvöfaldast, farið úr liðlega 16 þúsund í 37 þúsund manns.

Setjum kraft í kjarabaráttuna
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með markaðslaunakerfinu drabbast niður síðustu árin. Sem dæmi um þá neikvæðu þróun má nefna að launakönnunin hefur með einhverju móti staðnað og þarfnast endurskoðunar eigi hún að þjóna þeim mikilvæga tilgangi sínum vel – að bæta launakjör VR félaga. Ungir VR félagar hafa margir hverjir ekki heyrt að markaðslaun minnst og svo mætti lengi telja.

Í Danmörku annast opinberir aðilar gerð launakannana fyrir vinnumarkaðinn, svo að dæmi sé nefnt um framkvæmd þessara mála í nágrannalöndunum.

Hvernig sem á málið er litið, þá er það stórt hagsmunamál fyrir mikinn meirihluta VR félaga að markviss vinna fari af stað og markaðslaunakerfið hafið upp til fyrri vegs.

Réttlát umskipti

VR hefur í gegnum ASÍ átt aðild að frábæru starfi samtaka launafólks í umhverfis- og loftslagsmálum. Ein af lykilaðgerðum vinnumarkaðarins í þessum mikilvæga málaflokki snýr að réttlátum umskiptum (just transtition) sem snýr að þeim kostnaði sem umskiptin úr ósjálfbæru í sjálfbært samfélag leiðir óhjákvæmilega af sér.

Ég fann ágæta skilgreingu hjá BSRB sem ég leyfi að fljóta með til hægðarauka.

Þær samfélagsbreytingar sem nú eru að verða vegna loftslagsbreytinga, loftslagsaðgerða, sjálfvirknivæðingar, stafrænna lausna og lýðfræðilegra breytinga munu hafa áhrif á framleiðslu, neyslu og störf til frambúðar. Mikilvægt er að skiptingin af kostnaði, byrðum og ágóða þessara breytinga verði réttlát og að nauðsynlegar aðgerðir og mótvægisaðgerðir verði mótaðar með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja félagslegan stöðugleika og stuðning almennings við nauðsynlegar aðgerðir,

Að mínu mati er ótrúlega mikilvægt að VR leggi, sem stærsta og öflugasta stéttarfélagið, allt það afl sem það getur til þessa ótrúlega mikilvæga málaflokks. Kolefnishlutleysi er risavaxið verkefni sem allir þurfa að leggjast á eitt um að leysa – sem allra fyrst.

Jafnframt get ég heilshugar tekið undir með BSRB að verkalýðshreyfingin þurfi að fá aðkomu að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðgerðir stjórnvalda geta haft áhrif á mismunandi tekjuhópa sem og möguleg þjóðhagsleg áhrif aðgerða.

Vinnumarkaðurinn og heimsmarkmiðin

Margt hefur breyst með Covid. Eðlilega. Heimsfaraldurinn hefur skiljanlega átt alla athygli. Nú, þegar þessi vágestur virðist á undanhaldi, geta önnur brýn mál fengið rými í umræðunni.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru á meðal þeirra mála sem við þurfum að koma aftur í umræðuna. Áttunda markmiðið beinist sérstaklega að vinnumarkaðnum og þeirri verðmætasköpun sem þar fer fram.

8. Góð atvinna og hagvöxtur
Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

Staða þessa markmiðs hér á landi var fyrir Covid í megindráttum sú að framleiðni aukist í sátt við umhverfi og samfélag, þ.e. að aukin verðmætasköpun verði ekki með einhverju móti á kostnað umhverfis, náttúru eða launafólks. Langtímaatvinnuleysi og baráttan gegn því heyrir einnig undir þetta markmið, að efla stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu sömuleiðis og að tryggja öllum jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu.

Segja má að nú, í kjölfar Covid, hafi mikilvægi þessa heimsmarkmiðs síst minnkað. Atvinnuleysi hefur sjaldan eða aldrei verið meira og heilu atvinnugreinarnar eru í sárum samfara alþjóðlegum ferðatakmörkunum.

Fjölgun starfa og nýsköpun í atvinnulífinu, er á meðal þess sem leggja verður aukna áherslu á. Þá verður að fylgja því fast eftir að núverandi atvinnuleysi festist ekki að einhverju leyti í sessi. Stéttarfélögin geti lagt hér gjörva hönd á plóg í gegnum virkiúrræði og starfsmenntasjóði.

Sú aðkoma gæti ekki aðeins auðveldað okkur leikinn eftir Covid. Tilhögun mennta- og fræðslumála gegnir einnig lykilhlutverki fyrir aðlögun vinnumarkaðarins að 4. tæknibyltingunni og þeim djúpstæðu breytingum sem eru að eiga sér stað í atvinnulífi í kjölfar hennar. Hér höfum við því verk að vinna.

Hvað önnur undirmarkmið snertir, þá verðum við einnig að halda vöku okkar í umhverfismálum. Þau nýju störf sem verða til, verða að skora betur gagnvart markmiðum Íslanda í kolefnishlutleysi.

Þá höfum við sem fyrr verk að vinna í úrræðum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Aðgengi að vinnumarkaði er almennur réttur allra og að sjálfsögðu verður aldrei slegið af kröfunni um jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir alla.

Atvinnuframboðstrygging

Afleiðingar heimsfaraldursins hefur heldur betur leitt í ljós ýmsa bresti í velferðarkerfinu. Fátt er svo með öllu illt, gæti einhver sagt.

Ekki aðeins eru atvinnuleysisbætur alltof stuttar (staðreynd sem hefur blasið við alltof lengi). Sjálft bótatímabilið sem miðast við 80% af meðallaunum er heldur stutt eða tvö ár. Dragist COVID-ástandið enn frekar á langinn er ljóst að bæði atvinnuleitendur og sveitarfélög verða fyrir verulegu höggi.

Þá má í þessu sambandi spyrja hvort ekki þurfi að auka enn frekar svigrúm til starfs- og endurmenntunar hjá atvinnuleitendum. Slík ráðstöfun gæti jafnframt verið heillavænleg til framtíðar litið og áhrifa fjórðu tæknibyltingarinnar.

Dr. Ólafur Margeirsson rifjaði nýlega upp í athyglisverðri grein á Kjarnanum atvinnuframboðstryggingu sem annan valkost við hefðbundnar atvinnuleysisbætur. Einnig fjallar hann í þessari grein um borgaralaun og ber lauslega þessar tvær ólíku en áhugaverðu leiðir saman.

Atvinnu­fram­boðs­trygg­ing er trygg­ing á fram­boði af störf­um, end­ur­mennt­un­ar­nám­skeiðum og sam­fé­lags- og umhverf­is­verk­efnum þar sem þátt­tak­endur fá borgað laun sem duga til lífs­við­ur­væris fyrir að vinna við­kom­andi störf, sitja við­kom­andi end­ur­mennt­un­ar­nám­skeið eða starfa við við­kom­andi sam­fé­lags- og umhverf­is­verk­efni. Rík­is­sjóður fjár­magnar atvinnu­fram­boðs­trygg­ingu.

Þetta eru áhugaverðar hugmyndir og allrar athygli verðar. Í Danmörku býðst námsmönnum að kaupa sér fyrir lítið verð atvinnutryggingu, sem er í ætt við þetta úrræði. Tryggingar af þessum toga eru því þegar í boði í nágrannalöndunum.

Jafnréttið

Það er þetta með jafnréttið. Við höfum ekki fyrr náð áfangasigri á einu sviði fyrr en vonbrigði gera vart við sig á öðru. Fyrir hvert skref sem tekið er, virðist annað tekið aftur á bak – einhvern veginn óhjákvæmilega.

Kynbundni launamunurinn virðist, sem dæmi, ofurseldur þessu skrýtna lögmáli. Hann virðist rokka upp og niður og stundum aðallega upp. Vera kann að þetta sé að einhverju leyti mælitækjunum að kenna. Þau séu bara ekki nákvæmari en þetta.

Hitt er þó miklu líklegra, að kynbundna hlutverkaskipting eigi hér stærstan hlut að máli, þ..e. þau römmu tök sem þúsund ára hefðir hafa haft á vinnumarkaðnum og brotist hafa út í kerfisbundinni gengislækkun á þeim verðmætum sem kvennastörfin er talin skila samfélaginu og lítillækkun á atgervi kvenna í stjórnunarstöðum.

Jafnréttisvottun er vonandi sú lykilaðgerð sem við þurftum til að ná betri tökum á þessum málum. Sem gömul bardagatík í jafnréttismálunum hef ég samt mínar efasemdir; jafnfréttisvottun er til bóta en margt er enn eftir.

Glerþakið, aðgangur kvenna að stjórnunarstöðum, er það mál sem hefur átt hug minn mestan að undanförnu. Ég er sannfærð um að við munum sprengja það ofan af okkur á endanum, en fram að þeim tíma verðum við að gera allt sem hægt er til að valdefla konur í sókn þeirra upp stigann – ungar konur, miðaldrakonur, trans konur, gamlar konur – allar konur.