Nokkrar staðreyndir um lífeyrissjóði

Ég hef verið að velta fyrir mér umræðu síðustu daga og vikna um lífeyrissjóðina. Mér virðist sem umræðan sé svolítið samhengislaus, fari dálítið tvist og bast, eins og sagt er. Þó má merkja tvo póla, finnst mér.

Á öðrum vængnum virðist því haldið fram að spilling sé að sliga kerfið, spilling sem stórfyrirtækin á Íslandi hagnist fyrst og fremst á. Á hinn bóginn eru síðan þeir sem líta veruleikann öðrum augum og telja lífeyrissjóðskerfið almennt séð í réttum farvegi, enda þótt sitthvað megi vissulega ræða í þeim efnum, eins og til dæmis einhæfni í fjárfestingum.

Í þessari umræðu eru að mínu mati nokkur mikilvæg atriði sem virðast stundum gleymast; staðreyndir sem mikilvægt er fyrir umræðuna að haldið sé til haga.
Má þar fyrst nefna gjaldeyrishöftin, sem höfðu mikil áhrif á starfsumhverfi lífeyrissjóða allt frá hruni og fram til ársins 2017, en þá fyrst voru þessi höft afnumin. Þetta haftaumhverfi batt verulega hendur lífeyrissjóða í fjárfestingum. Þetta er staðreynd sem við hljótum að hafa í huga þegar við ræðum rekstur lífeyrissjóðanna undanfarin ár og áratugi.

Í öðru lagi þarf að gera skýran greinarmun á óhagnaðardrifnum og hagnaðardrifnum verkefnum. Óhagnaðardrifnar fjárfestingar eru verkefni sem skila ekki nægri ávöxtun með tilliti til lífeyrisgreiðslna.

Léleg ávöxtun þýðir í raun bara eitt og það er að skerða verður lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.

Óhagnaðardrifin verkefni eru samfélagsverkefni sem eru í verkahring ríkis og sveitarfélaga að fjármagna. Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða og sjóðsfélaga þeirra að fjármagna samfélagsverkefni, heldur stjórnvalda og skattgreiðenda.
Í þriðja lagi þá byggir stjórnkerfi lífeyrissjóðakerfisins á sama fulltrúalýðræðinu og íslenska stjórnkerfið. Alþingi er samkunda kjörinna fulltrúa og íslenska lýðveldið byggir á fulltrúaræði.

VR og atvinnurekendur skipuðu til skamms tíma stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna beint. Þessu var breytt fyrir nokkrum árum og tekið upp fulltrúaræði – fulltrúaráð sjóðsins kýs stjórnarmenn – sem er hið ríkjandi fyrirkomulag hér á landi.

Og í fjórða og síðasta lagi þá ber að fara að leikreglum við skipan stjórna lífeyrissjóða. Ef ekki, þá er hætt við að viðkomandi stjórn njóti ekki þess trausts og trúverðugleika sem nauðsynlegt er öllum lífeyrissjóðssstjórnum.

Published by helgagudrun

:)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: