Hlutverk stéttarfélaga er að standa vörð um velferð félagsmanna og kjör þeirra. Sem stærsta stéttarfélag landsins er VR í einstakri aðstöðu til þess og mikilvægt er að félagið viðhaldi þessari stærð sinni og styrk.
Því stærra er í þessu sambandi betra, vegna þess afls sem stærðin gefur baráttunni fyrir bættum kjörum.
VR byggir styrk sinn og sérstöðu á mikilli breidd, sem spannar allt frá launafólki í afgreiðslu- og þjónustustörfum að sérhæfðu starfsfólki og háskólamenntuðu.
Þannig á VR að vera, öflugt og fjölbreytt félag sem staðið getur við bakið á félagsmönnum sínum, hvort heldur í sókn til betri kjara eða vörn þegar erfiðleikar kunna að steðja að.
Þessari einstöku stöðu hefur VR náð með því að gæta að hagsmuna allra félagsmanna og hefja baráttuna upp yfir flokkapólitík stjórnmálanna.
Þetta þýðir á mannamáli, að VR tekur ekki afstöðu út frá sérhagsmunum heldur almennum hagsmunum heildarinnar. Í gegnum tíðina hefur það verið lykillinn að velgengni VR og mikilvægasta framlag til sögu íslensku verkalýðshreyfingarinnar.